Balena er Maine Coon kisa, yndisleg, stór og góð. Hana vantar kannski pössun hluta af tímanum sem Þórhildur og Kristín eru á Spáni. Þegar hún var að sóla sig í gær sagði fólk sem átti leið framhjá: Hún er eins og ljón þar sem hún liggur í grasinu! Hún talar með ýmis konar murri og borðar fisk með loppunum eins og þvottabjörn. Hún er vön börnum og hundum. Balena er sprautuð, ormahreinsuð og örmerkt. Hún notar kassa ef þú vilt en fer annars út. Ef þig langar að passa Balenu hluta af júlímánuði, skrifaðu okkur þá á gudnadottir@gmail.com
kv. Þórhildur og Kristín
Vinir og fjölskylda | 24.6.2008 | 14:22 (breytt kl. 15:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blettatígur, ljón, tígrisdýr, hiphop, mamma, skógur, tívolí, villt náttúra, sveit, fótbolti, fimleikar, margar íþróttir, Lovísa, víkingahátíð, villileikur, Playstation, smíðar, keyra traktor, lömb, lasagna.
Kveðja, Þórhildur.
Lífstíll | 5.6.2008 | 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Spyrjandi hringdi í mig í gær til að grennslast fyrir um viðhorf mín sem foreldris til grunnskóla Þórhildar og til skólastefnu í víðara samhengi. Meðal annars var spurt um afstöðu mína til fimm ára bekkjanna svokölluðu. Ég var á móti. Þá var spurt um eitt og annað og svo var vikið aftur að málinu: En ef það yrði nú af þessu hvort vildirðu þá að fimm ára bekkirnir yrðu í leikskólum eða grunnskólum? Ég vildi hvorugt. Mér finnst útbreiðsla skólalíkansins gamla sem við þekkjum öll af eigin raun vera nú þegar orðin of mikil og margir kennarar upplifa sig í þeirri stöðu að gera eins gott úr hlutunum og hægt er miðað við aðstæður.
Nám hvorki bíður eftir né biður um að vera fært til bókar. Því er illa við að búið sé til fyrir það fjörutíu mínútna slott og því gert að fara þar fram undir tilteknu nafni. En svona er kerfið sem við búum við og höfum búið til og það tekur langan tíma að breyta því. Í millitíðinni gerum við okkar besta og reynum að tengja lífið og daginn í eina heild með samvinnu nemenda, kennara og foreldra.
Franska, kubbaleikur, stærðfræði, lífsleikni, boltafærni og tölvulæsi er nokkuð sem á heima í glósubókum, blackberrýum, notebookum og outlookum kennara en síður í "slottum" á námsdegi nemandans. Það á ekki að setja þessa hluti fram sem hindrunarhlaup eða aðskilin eyríki.
Ung manneskja er með samtengda vitsmuni, sál og líkama, sköpunarneista, félagsþörf, skapgerð og tilfinningar. Hún þarf að æfa sig í alls konar skemmtilegum, krefjandi og innihaldsríkum hlutum í samveru með öðrum. Með því að búta sífellt meira sundur námið álít ég að við takmörkum möguleika okkar sjálfra og annarra á að læra og verða það sem höfum burði til að verða.
Með heildstæðu námi er eitt vandamál leyst sem margir kennarar kvarta undan, að í sífellu sé herjað á þá um að bæta þessu og hina inn á stundatöfluna (sem nú þegar flæðir yfir barma sína). Treystum nemendum og kennurum til að finna út úr því hvað er best að gera þennan eða hinn daginn og slökum á eftirliti og námsmati. Þá fyrst fer að verða virkilega gaman í skólanum fyrir báða aðila. Og afskaplega lítið nám fer fram ef það er ekki gaman.
kv. kristín
Menntun og skóli | 19.5.2008 | 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
YouTube | 18.5.2008 | 18:51 (breytt 19.5.2008 kl. 10:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
... sem við Þórhildur höfum hlustað á undanfarið, gömul og ný, þekkt og minna þekkt:
1. Coimbra með Amalíu Rodriguez (ótrúlega fallegur portúgalskur blús)
2. Shut me up með Mindless Self Indulgence (heyriði hvað söngvarinn er með líka rödd og söngvarinn í Sparks?)
3. Newborn með Muse
4. Jockey full of bourbon með Tom Waits
5. In da house með Crazy frog (á YouTube)
6. Day-O með Harry Belafonte (lagið úr Beetlejuice)
7. Rani Maák El Youm með Cheb Mami
8. Fake empire með The National
9. Insane in the brain með Cypress Hill
10. No fear of falling með I Am Kloot
kv. kristín
Tónlist | 18.5.2008 | 18:04 (breytt kl. 18:18) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frásögn Þórhildar: Í sveitinni hjá pabba mínum, þegar ég er með kindunum, þá er ég oft að reka þær. Það er nefnilega þannig með kindur að þær vita oft ekki hvert þær eiga að fara. Maður þarf að reka þær. Stundum eru þær reknar út, á sumrin. Hestar hjá mér eru næstum því alltaf í hlöðunni þegar þeir eru inni. Stundum leyfum við þeim að fara út að velta sér. Pabbi fór með keppnishest í sund um daginn. Ég er með barnahest sem ég fer á í reiðtúr næst þegar ég fer til pabba. Ég ætlaði að fara í dag en ég er með magapest. Það er leiðinlegt því ég missi af fleiru, dansinum og leiklistinni.
Hér eru upplýsingar um kindur og fleiri húsdýr. Mér finnst gott að vera með dýrum. Mamma var í sveit þegar hún var krakki og einu sinni kom hún að nýbornum kálfi sem var að kafna úr slími af því að mamma hans karaði hann ekki, en það þýðir að hún sleikti ekki af honum óhreinindin og slímið. Þá þurfti mamma að sjúga sjálf slímið úr nösunum og munninum á honum. Svona þarf fólk stundum að gera í sveitinni.
Sveitin | 5.4.2008 | 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér er hugmynd: Í staðinn fyrir að fara á rítalín geturðu prófað hleðslutæki fyrir heilann.
Kóreska fyrirtækið DreamFree hefur sett á markað stafrænan heilabylgjuvaka, fartæki sem frískar upp á heilastarfsemina.
Þig langar í þetta hleðslutæki.
Þú ætlar bara að elska heilann í sjálfri þér.
Um fyrirtækið segja aðstandendur: DreamFree gerir alla drauma að veruleika og leggur áherslu á viðskiptavininn og nýja tækni. DreamFree er þróunarfyrirtæki sem verður leiðandi í upplýsingatækni í Kóreu. Undirbúðu framtíðina með Dream Free. Við látum drauma þína rætast.
Þú ert nú þegar vakinn og sofinn yfir hugsunum þínum. Það sem þú ert reyndar að leita að er samhæfing.
Í staðinn fyrir að fara útog suður í hausnum einsog asni viltu nota Svarta hestinn til að komast til Ástralíu og borga alla Reikningana þína. Sjá Börnin skoppa hamingjusöm útí lífið af því þú mundir eftir að kaupa fjörmjólk og lýsi, nei þetta er ekki smáatriði því börn geta þjáðst af varanlegum járnskorti og mjólkuróþoli. Mæta á Foreldrafundinn með eitthvað skemmtilegt ljóð í eða á hausnum án þess að gleyma Viðtalinu Ráðstefnunni Lækninum. Kaupa nýja Sjálfskiptingu og gefa Kettinum en hætta ekki að hlæja. Velja rétt Þvottaprógramm og skila Ritgerðinni í þróunaraðstoð án þess að gefast upp fyrir staðalímyndinni og koma þér vel fyrir í ræsinu. Senda Tímaritið í prentsmiðjuna og semja við Glitni og skila á Safnið og fara létt með það. Ýmislegt svona, það er ástæðulaust að þreyta lesendur úr hófi með upptalningu.
Lífið er svo flókið!
Um heilahleðslutækið segir á vef fyrirtækisins: Með því að framkalla margvísleg heilabylgjumerki veldur tækið því að fólk sofnar, þreytan hverfur eins og dögg fyrir sólu og námsgetan eykst. Ennfremur segir: Tilfinningin er svipuð og að fá sér lúr með Kraftwerk í bakgrunni.
Fyrirtækið var stofnað af meðlimum í Mensa samtökunum í Kóreu, en til þess að fá inngöngu í þau samtök þarf viðkomandi að vera með að lágmarki 158 í greindarvísitölu. Ekki er krafist sömu greindarvísitölu af þeim sem hyggjast kaupa tækið en það er selt á þrjú hundruð dollara.
Nei annars þú verður að losa þig við ljóðið og hláturinn, hamingjusömu börnin, svarta hestinn og ástralíu því DRAUMLEYSI er markmiðið. DreamFree. En þarftu tæki í það? Er ekki nóg að horfa á fréttirnar? Kannski gleyma menn að myrða hver annan ef við kaupum heilahleðslutækið frá DreamFree handa þeim. Það er mobile einsog hryðjuverkamenn, ný stétt verkamanna ... sem Marx sá ekki alveg fyrir sér: svona.
DreamFree tækið samanstendur af hugbúnaði, silfurlitum sólgleraugum og heyrnartólum (litur ekki tilgreindur).
PERFECT FIT að vera draumlaus og með báða fætur á jörðinni, draumarnir eru uppá himnum. Svo á jörðu sem á himni.
Á móti: Dream Free í tveimur orðum er DREYMDU FRJÁLS. Það er ekki slæmt! einsog maðurinn minn myndi orða það.
Og í lokin, til varnaðar: DreemFree er í samkeppni við annað fyrirtæki, Altwell, sem hefur hannað svipaðan varning. Allt í góðu vonandi. It makes these little flying-saucery sounds, sagði Neil Rubenking framlagstækniritstjóri (contributing technical editor) PC Magazine. I guess I sort of liked it.
Ljóð | 1.4.2008 | 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sveitin | 1.4.2008 | 10:49 (breytt kl. 13:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nokkuð er um að börn hafi sitt eigið blogg hérlendis. Mæðgurnar sem hér blogga ætla hins vegar að láta á það reyna að vera með sameiginlegt blogg og þumalfingursregluna 1:1, það er að á móti hverju bloggi Þórhildar (8 ára) komi eitt frá Kristínu (46 ára). Gaman væri að fregna af fleirum sem hafa sama háttinn á, þ.e. feðgum, feðginum, mæðgum eða mæðginum sem blogga saman. Kannast einhver við það?
Hugmyndin að baki sameiginlegu bloggi þvert á kynslóðir er að leggja í púkk með þeim skilningi að börn séu áhugaverð fyrir fullorðna og fullorðnir áhugaverðir fyrir börn. Raunverulega, ekki bara til að sýnast. Sú skoðun að maður eigi bara samleið með jafnöldrum sínum er nokkuð takmörkuð ekki satt? Bækur, bíó og aðrar listir færa okkur heim sanninn um sameiginlega snertifleti eða hver hefur ekki gaman af Roald Dahl og Mary Poppins?
Bloggar | 26.3.2008 | 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allt frá aldamótum hefur Kristín heyrt sögur um skipulagðar sæber árásir eða nethryðjuverk Kínverja á BNA, Tíbet og jafnvel fleiri þjóðir. Hér er sagt frá Trójuhestum og fleira góðgæti sem Kína sendir (að sögn) Tíbeskum NGO's, Falun Gong og Uyghúrum. Það er hægt að berjast á ýmsa vegu.
Stjórnmál og samfélag | 26.3.2008 | 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þórhildur fór í fyrsta sinn á skíði í gær og mælir með skíðakennslunni í Bláfjöllum. Hún er ókeypis, stendur yfir í hálftíma og kennarinn er frábær. Þórhildur lærði meðal annars að stoppa með því að setja fæturna í pizzu, beygja með því að setja þungann á annan fótinn og margt fleira gagnlegt. Hún skíðar eins og ekkert sé og í dag er hún í Skálafelli.
Stjúpi Þórhildar, Kristján, stendur fyrir skíðaferðunum. Hann hitti kunningja sinn á skíðum í vikunni sem leið og sá var nýbúinn að fá sér ítölsk sportgleraugu frá Rudy Project. Það eru fjölnota gleraugu og hægt að skipta um gler eftir því hvort maður er að fara í golfið eða á skíðin og fleira. Svo er hægt að setja í þau sjóngler (á bak við lituðu glerin), sem er kannski aðalkosturinn. Gleraugun fást á Akureyri, Ísafirði og víðar en hér í Reykjavík fást þau í PlúsMínus á Suðurlandsbraut.
Skíði | 24.3.2008 | 11:45 (breytt 1.4.2008 kl. 13:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar Kristín mamma Þórhildar gekk frá Ártúnsholti vestur í bæ í morgun um hálf tíuleytið labbaði hún fram hjá nokkrum mótorhjólalöggum og mætti manni um sextugt, öðrum á fertugsaldri, sá nokkra unglinga afsíðis og kastaði kveðju á japanskt par með tökuvél. Fleiri voru það ekki á einni klukkustund. Þeim síðasttöldu hálfbrá að hitta Kristínu í þessari tómu borg sem hlýtur að vera undarlegt að upplifa þegar maður býr í jafnmannmörgu samfélagi og Japan.
Dægurmál | 23.3.2008 | 12:50 (breytt kl. 14:22) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þórhildur er átta ára gamall hipphoppari og hér er tónlist sem henni finnst gaman að dansa við:
Mary J. Blige, Kanye West, Scooter, Wu Tang Clan. Scooter er reyndar þýsk electróník en samt fínt að dansa við. Svo er Hundur í óskilum líka í uppáhaldi hjá Þórhildi.
Hér er góð síða fyrir unga hipphoppara: http://www.hip-hop-dance.net/index.html
Hiphop | 21.3.2008 | 15:50 (breytt 1.4.2008 kl. 13:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
enginn tímir að gefa súkkulaðið sitt
það angar af jörðinni hálfbráðið í vasanumþað er svo fátt sem minnir á jörðina
hún er svo langt að heiman og í burt frá þeim
Ljóð | 21.3.2008 | 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)