Draumar eru nauðsynlegir

Þegar þú ferð að sofa þá slokknar á líkamanum þínum og mestum hluta heilans. Hann fær hvíld eftir langan dag. Á meðan er undirmeðvitundin þín vakandi og virkari til að koma í staðinn fyir hinn hluta heilans. Strax spretta upp hugsanir og skoðanir sem verða að draumum. Þetta er mjög flókið í rauninni og það er ekki mikið sem við vitum um drauma. Draumar verða til af undirmeðvitundinni og oft er hægt að túlka drauma eins og einhver ákveðin skilaboð frá henni. Allir draumar eru mjög sannfærandi, finnst mér, þeir láta manni finnast eins og þetta sé í alvörunni og að þetta hafi alltaf verið svona.

Þegar ég var um það bil sex ára dreymdi mig nokkra flugdrauma í röð þar sem ég flaug af háum byggingum. Mér fannst þetta svo raunverulegt að ég prófaði að stökkva af sófa, en eins og þið vitið var niðurstaðan neikvæð svo ég hætti, fúl á svip yfir að þetta hafi ekki virkað. Mér finnst eins og draumar séu eitthver annar heimur eða önnur vídd þar sem maður fær að upplifa hluti sem maður fær ekki í alvörunni. Einu sinni þekkti ég strák sem gat stjórnað draumunum sínum. Hann var mjög klár og athugull. Nokkrar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar varðandi drauma. Sagt er að ef þig dreymir ekki þá veikistu - á endanum fer þig að dreyma í vöku og þá missirðu tengsl við raunveruleikann. Rannsóknir gefa vísbendingar um að draumar vinsi úr deginum það sem þarf að fara í minni og hitt sem má hverfa. Líka að þeir séu forsenda sköpunar. Án drauma missum við minnið og sköpunargáfuna. 


Ekki rétt.

*Þetta gerðist um daginn. Nefni engin nöfn*

Myndlistakennarinn minn dró mig eftir tíma og sagðist þurfa að tala við mig. ''Já'' Sagði ég. 

''Heyrðu ég vildi ekki segja þetta fyrir framan strákana í tímanum en þegar þú fórst úr hettupeysuna þá varstu frekar ber, það sást vel í handleggina þína. Við viljum ekki að strákar fari að hugsa um þig á ákveðin hátt.'' Svaraði myndlistarkennarinn minn. ''Bíddu afhverju ætti mér ekki að vera sama?'' Sagði ég móðguð. 

 

Það sem hafði gerst var að ég hafði verið að leira með blautan leir og ákvað að fara úr hettupeysunni minni til að skíta hana ekki út. Þá var ég bara í venjulegum, bláum hlýrabol. Myndlistakennarinn minn kvartaði að ég væri og ber og drusluleg. Ég varð bara hreint út móðguð. Maður byrjar að spá í hvað samfélagið hefur breyst í. Ég þoli ekki hvað fólk lítur illa á manneskjur sem klæða sig "druslulega". Samfélagið hefur hægt og hægt mótað þá skoðun að konur sem eru með of mikið snyrtidót á sér, stutt föt eða brúnku eru druslur. Persónulega séð finnst mér að að við ættum að fagna hvernig við lítum út. Við dönsum, málum, skrifum og hreyfum okkur með líkamanum okkar. Hvað er að því að vera stolt að sjálfum okkur? Ekki eru karlar dæmdir fyrir að vera í fáum fötum eða of berir. Ég bara hugsa og spyr hvað er að okkur? 


Frekar venjulegt í gangi

Þetta verður frekar venjulegt blogg. Bara verið að segja hvernig lífið er í augnablikinu.Hér sit ég með vinkonu minni í eurovision partý. Rosa gamanWink ískrap, grillmatur, gott veður og eurovision. Framundan er ferðalag út á land. Við erum að fara til ræktanda eins hundsins okkar og erum alvarlega að hugsa um að fara að skila honum. En nú þarf ég að far, ég ætla að knúsa vinkonu mína. MUAWH VONANDI EIGIDI ÆDISLEGAN DAG!

Árin líða

Það er svo skrítið hvað tíminn líður hratt. Ég finn hvernig hann hleypur framhjá mér en auðvitað þá reynum við öll að halda í hann. Hvað get ég sagt? Auðvitað er mitt svar. Þó að ég sé bara unglingur þá finn ég sterklega hvað ég er hrædd um að ég muni missa bestu ár lífs míns, hvatvísu og skemmtilegustu. Ég er hér til að segja: hafðu ekki áhyggjur. Þú spyrð afhverju. Tími er bara orð, tími er bara verið að segja alla stórkostlegu framtíðina sem þú átt framundan og fortíðina sem eru góðu minningarnar en samt afrekin sem þú sigraðist. Hvort sem þú ert gömul, ung eða átt erfitt þá veistu innst inni að þú ákveður hvernig þitt líf þitt verður. Smile

#FUCKJUSTLOVEYOURSELF# 


Fullkomin/nn eða ekki

Viðurkenndu það..okkur öllum finnst útlit skipta gríðarlega miklu máli. Grunnskólinn skiptist oftast í svo flokka, flottur eða ekki. Útlitið er okkur allt. Það ræður hvort þú verður vinsæll, óvinsæll eða bara ekkert. Það ræður hvort þú átt vini eða ekki. Sjálfsöryggi...eða ekki. Öll skólagangan fer eftir úlitinu! Kannski er ég að ýkja þetta. Kannski er þetta ekki svona alls staðar. En sjáðu til, sjálfsöryggi dregur fólk til sín. Bara ef þú ert með sjálfsöryggi þá stoppar þig ekkert. Þá áttu vini, frábært félagslíf og öllum er sama um útlitið þitt. Ég bara vildi að það væri alveg eins einfalt og það hljómar en þegar þú byrjar í skóla full af sjálfsörrygi með hreint blað þá byrjar fólk fljótt að dæma þig. Ef þú ert smá feimin þá finnst það þú skrítin. Ef þú ert þybbin ertu feitur og asnalegur. Ef þú ert bara einfladlega ekki nógu flottur þá færðu öðruvísi meðferð en ''flotta fólkið.'' Niðurstaðan er að þú dregur þig meira í hlé. Reynir að hverfa. Fela þig skömmustuleg yfir því hver þú ert. Því fólkið dæmir þig svo mikið. Bekkjarfélagar pískra um þig, ýta þér frá í leikjum og virða þig ekki. Þú reynir stöðugt að falla í hópinn. Og brátt verður þú örvæntingarfullur. Það mun stundum bitna á einkunum þínum, líðan og eiginlega bara allt! En hér er málið. ÞÚ þekkir þig betur en allir! ÞÚ veist hver þú ert! Ekki láta fólk hafa áhrif á það. Því sumir byrja smán saman finnast þeir ljótir, asnalegir eða ekki nógu góðir. Þeir byrja að trúa lygunum um þá. Ekki fara þangað. Haltu áfram smátt og smátt, hrósaðu fólki, alltaf virða þig og hjálpaðu okkur að breyta þessu fáránlegu munstri í skólum.

Tíska! Nýtt og nýjast

46571_4161245002683_1926728262_n

Ég get ekki verið sú eina sem finnst tískan þreytandi. Tökum lítið dæmi. ''Oh hugsa ég. Aldís er komin með nýjasta lookið...hér byrjar það aftur. Ég hef bara ekki tíma í þetta. Ég er kannski smá öfundssjúk...'' Tískuiðnaðurinn er flókinn. Þegar eitthvað verður vinsælt (aðallega föt) þá fréttirðu það kannski frá vinkonu þinni sem frétti það frá sinni og þá verður þú undir áhrifum að þetta sé flott. En hvaðan kemur þessi hugmynd? Hún hlýtur að eiga sér einhver upptök. Já búðir...Þær gera það ekki með einhverjum fáránlegum auglýsingum eins og auglýsing um ódýr föt fyrir krakkann heldur fá fyrirmynd til að klæðast þessu. Og svo setja búðirnar gríðarlega hátt verð á þessa flík...ég held að við munum öll eftir PINK buxum. Ég man vel eftir tísku ''tímabilunum'' hjá mér. Adidas, PINK, reebook skór, Everlast buxur, og fl. Allt merkjavörur og rosalega dýrar. Búðirnar keppast um að búa til nýjar og nýjar vörur svo að tískan breytist hratt og það þýðir að unglingarnir kaupa alltaf nýtt og nýtt því tískan breyttist svo hratt. J

æja hvert fara peningarnir...Einmitt...búðirnar. Árið 2012 í ágúst bjó Macklemore til lag sem heitir ''Thrift shop''(Ég held að þið öll þekkið það) og náði gríðarlegum vinsælum. Mér finnst lagið senda frábær skilaboð. ''Klæddu þig eins og þú vilt!'' ''Það er ekki asnalegt að kaupa notuð föt!''Rifjaðu bara upp klæðnað Lady gaga. Ég vil að þið séuð með ykkar eigin stíl..fara í föt sem ykkur finnst flott! Ég vil að þið gangið stolt í skólann í því sem þið eruð í! Eins og við öll vitum þá er skólinn erfiður stundum. En þið getið gert hvað sem er..klippt gömul föt og gert þau flottari..málað þau...tússað. Bara hugsaðu smá :) 


BESTUCUPCAKELOVE frá Þórhildi.


Smá :)

 Hlakka til að byrja..vonandi verður þetta bara fjör :) á morgun ætla ég að setja grein frá mér um tískustéttina, þrýstinginn og mismunandi stíl! Og tala um það vel og vandlega..hvet ykkur til að klæða ykkur eins og þið viljið! 

image


Hæ!

Allt í lagi..ég ætla að byrja einfaldlega á þessu bloggi :) Þetta byrjaði nú bara þannig árið 2008 þegar ég varð að vera 9 ára þá ákvað mamma mín að búa til þetta blogg fyrir okkur. Við settum hugmyndir,skoðanir og myndir á bloggið okkar. En eftir ár þá gleymdist þetta hægt og hægt. Núna árið 2013 þá rifjaði ég upp bloggið einu sinni enn. Svo ég ákvað að byrja aftur. Ég ætla að skrifa um eiginlega allt. Mat..vinir..fjölskylda...listir...skóli og fullt fullt fleira :)

Hundasýning HRFÍ, Bonni mætir á svæðið

Þórhildur og Bonni nóv 08

Bonni er að sýna sig í dag á hundasýningu HRFÍ! Ræktandinn hans sýnir hann, hún heitir Ólöf og er með Eyðimerkur ræktun, bara flottir hundar. Geðgóðir með eindæmum og hrikalega sætir. Gott gengi Bonni!

Kv. Þórhildur og Kristín.


Enginn Spánn í ár ...

 Albir í júlí 2008 128.jpg 2... en vonandi nokkrir sólardagar. Næsta sumar förum við ekki til útlanda frekar en margir landar okkar. Hér er ég með tveimur af stelpunum mínum (vantar þá elstu og dótturdæturnar) á Spáni sumarið 2008. Kominn tími til að skipuleggja næsta sumar. Allar góðar og ódýrar hugmyndir sem kosta ekki himin (flug) og haf (sigling) eru vel þegnar!

Kv. Kristín.


Eyðimerkur Luciano Pavarotti

Bonni um jólaleytið 2008Hundurinn okkar kom í fjölskylduna á sk. fóðursamningi í október. Hann er kallaður Bonni og er sandlitur síðhærður Chihuahua. Kíkiði á myndina af honum í jólaskapi, er hann ekki sætur!

Kv. Þórhildur og Kristín.


Íþrótta(alls konar)tækið - ný uppfinning

Hér kemur ný uppfinning. Þetta tæki sem ég ætla að tala um er dálítið stórt og langt. Það fer utan um mann, það eru alls konar takkar á því. Til dæmis ef ég væri að fara út og ætlaði að vera í tækinu, þá myndi ég kaupa tækið, gera á mig gat með sprautu og festa snúru úr tækinu í gatið. Svo eru miljón takkar á þessu tæki, það er mjög flókið. Maður notar stýri til að beygja, fara áfram og svo framvegis. Snúran er nauðsynleg og tækið virkar ekki án hennar. Ef maður tengir snúruna er tilfinningin alveg eins og maður sé að ganga, hlaupa og svo framvegis, eins og maður sé tækið! Þá fær maður alltaf góða hreyfingu. Svo er hægt að gera ýmislegt, til dæmis þegar maður er að fara í tíma í skólanum getur maður verið í tækinu og ekki þarf stóla og borð. Maður ýtir á takka og borð skýst út úr tækinu og hönd sem réttir manni blýant og allt sem þarf. En það er semsagt eins og maður sé að gera þetta allt sjálfur, út af snúrunni. En maður hreyfir sig miklu meira en maður myndi annars gera. Eitt enn: maður finnur ekkert fyrir tækinu þegar maður hleypur og gengur. Loks getur maður haft hjól á tækinu og verið eins og á línuskautum, hjóli eða hjólabretti, voða skemmtilegt!

Ég fékk ábendingu um að teikna myndir af uppfinningunum mínum og setja hér á bloggið, ég er að vinna í því. Ég á ekki skanna en ætla að athuga hvort ég get notað teikniforrit sem er til hérna heima en ég veit ekki hvort passar í tölvuna.

Kv. Þórhildur

 


Sjimpansar servera kokteilana

Einn af mínum uppáhöldum er Zygmunt Bauman, pólskur félagsfræðingur af gyðingaættum, ári eldri en pabbi minn heitinn og næstum jafnsköllóttur og pabbi var.

Bauman kom hingað fyrir nokkrum árum og talaði um lýðræði og hnattvæðingu, hann er einn þeirra sem fékkst (og fæst) við að skilgreina valdið og staðsetja það. Klár og flottur hugsuður en mætti finnst mér alveg gefa mannfræði svolítinn gaum til að missa ekki af ýmsu því sem gerist á akrinum og hefur áhrif til lengri tíma litið ... eða jafnvel á skömmum tíma.

Eins og til að mynda bloggið sem er ekki bara sjálfsdekur heldur líka samfélag með stéttskiptingu og flokkadráttum.

Bauman sá að hið opinbera var að verða hálfgetulaust andspænis peningavaldinu. Hann sagði sem svo: Lýðræði þrífst ekki nema hið opinbera (ecclesia) og hið persónulega (oikos) kallist á í skoðanaskiptum - og vettvangi þeim má líkja við grísku Agoruna, torgið, heimavöll lýðræðis eins og það er þýtt í greinasafninu Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar sem var ritstýrt af Hjálmari Sveinssyni og Irmu Erlingsdóttur.

Lýðræði er þýðingahringur, segir Bauman í greinasafninu, þar sem þýðingu lýkur, þar sleppir lýðræðinu.

Þótt því sé haldið fram að kapítalisminn finni sér alltaf útleið, eins og þá að láta þjálfaða sjimpansa servera kokteilana þegar pöpullinn segir pass er ljóst að einhverjar breytingar eru að verða á samspili public og private, ecclesia og oikos, umfram þær sem Bauman fjallar um. Eru sviðin tvö aftur farin að tala saman? Er þýðingunni langt í frá lokið?

Bretinn Evans-Pritchard taldi að mannfræði ætti að þjóna því hlutverki að þýða á milli menningarsamfélaga. Í póstmódernísku samfélagi þótti þetta fádæma hroki, hvernig er hægt að ætla sér slíkt verk? Það er auðvitað rétt upp að vissu marki en viðleitnin verður alltaf að vera til staðar.

Þýðandinn Gauti Kristmannsson og stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann Einarsson skrifa á ensku í blöð á ensku um íslenska upplifun, á bakvið tjöldin ræða pólitíkusar, bjúrókratar og bankamenn saman þvert á landamæri. Egill - aldrei eftirbátur - ræðir í Kiljunni á frönsku við Philippe Claudel sem samdi Í þokunni. Bókin sú fjallar um hryllilegan glæp og tvo liðhlaupa sem hvor um sig gæti hafa framið glæpinn. Tilviljun að Egill beinir gráum sjónum sínum að þessu viðfangsefni - og hristir rauðan makkann?

 Kv. Kristín 

 

 


Voffavoff og það er skemmtilegt að eiga hund!

Við mamma vorum að spá í hvort við gætum fengið okkur hund. Hundar eru bara æðislegir. Það sem okkur finnst skemmtilegt við hunda er að það er gaman að fara með þeim út og tökum sem dæmi: Einhver einn maður býr einn, á enga fjölskyldu, allir eru dánir, á engin börn. Þá væri gott fyrir hann að kaupa sér hund, hann myndi fá félagsskap, hundurinn er góður og skemmtilegur og félagslyndur.

Mér hefur alltaf fundist gaman að fara út með hunda og passa þá. Einu sinni, þegar ég var lítil, þá áttum við mamma hund. Hann var kóngapúðli og hét Kolur. En ég var svo lítil að ég fattaði ekkert og ég gat ekki farið með hann út af því hann var svo stór, ég var eiginlega ekkert að hugsa um hann. Þess vegna vil ég núna eignast hund.

Ég er að safna pening og mamma er alltaf að fara á netið og gá. Við mamma og stjúppabbi minn, við búum í fjölbýli og getum ekki fengið okkur stóran hund. Við erum samt með sérinngang og allt. En við mamma ætlum að og stefnum að því að fá okkur hund og gerum allt sem við getum til þess að fá hund. Ef þið vitið um lítinn hund sem vantar heimili, eða eigið sjálf hund sem þið getið ekki átt lengur, látið okkur þá vita.

Kv. Þórhildur.


Við erum ekki í stríði

Áhlaup á banka, fjárhagsþrengingar einstaklinga, glataður ævisparnaður. Hremmingar, já. Stríð, nei. Margir hafa gripið til líkingar við stríð og annars líkingamáls sömu ættar en það er reginmunur á því sem við erum að ganga í gegnum og stríði. Í stríði er fólk drepið. Vörum okkur á ýkjustílnum. Hann kemur illa við börn og marga aðra.

Kv. Kristín.


Hestvagnabíll, uppfinning

í staðinn fyrir að hafa bíla sem eyðileggja umhverfið breytum við bílunum í  hestvagna, við tökum dekkin af og í staðinn setjum við gamaldags hjól eins og í gamla daga þegar allt fólk var í hestvögnum. Svo setjum við 4 sæti upp á þakið á bílnum og höfum belti, bara um mittið, og festum hesta á móti okkur eins og á hestvögnum - og þá má kalla uppfinninguna mína hestvagnabíll og þá er ég búin að útskýra hvernig við búum til náttúruvæna bíla sem menga ekki umhverfið.

Kv. Þórhildur.


Sumarið kemur aftur

Haustið er uppskafningur
sem heldur að það geti feykt sumrinu um koll
í eitt skipti fyrir öll
-Nú er nóg komið af svo góðu!
segir haustið og byrstir sig
Sumarið lætur sem það heyri ekki
ávítur haustsins
Það kveður bara, góðlátlega,
og birtist á nýjan leik að ári
eins og ekkert hafi í skorist.

kv. Kristín

Ef ég væri forsætisráðherra

Ef ég væri forseti, forsætisráðherra eða borgarstjóri þá myndi ég breyta öllu umhverfinu. Láta bílvegina fara og í staðinn fyrir bíla myndi ég setja hestvagna. Á öllum bílastæðum myndi ég setja upp girðingar og þar væri hægt að geyma hestana ef maður þyrfti til dæmis að skreppa í búð - þannig að bílastæðin yrðu hestvagnastæði. Ég myndi líka gróðursetja blóm og tré og alls konar plöntur. Svo myndum við rífa öll hús og í staðinn myndum við byggja tréhús. Ef það kæmi stormur eða annað óveður þá myndi ég hafa tréhúsin stálstyrkt. Þá væri umhverfið miljón sinnum betra en núna. Svo myndum við hætta að menga umhverfið og kannski - ef þetta myndi ekki gerast - þá yrði jörðin hugsanlega lífvana eftir fimm hundruð til þúsund ár, ekkert súrefni og bara loftmengun. Þess vegna vil ég endilega láta þetta gerast. Svo myndi ég líka vilja láta búa til sláttuvélar sem myndu ekki slá grasið svona snöggt heldur skilja eitthvað eftir, líflegt, flott og náttúrlegt. Nú ætla ég að segja hvaða tæknihluti við eigum ekki að vera án: Útvarp, tónlistardiskar, IPod, tölvur. En alls ekki sjónvarp. Við þörfnumst ljósa og ljósapera. Ég vil líka láta rífa suma ljósastaura því mér finnst þeir of margir. Stundum hefðum við bara kerti hjá okkur ef það er of dimmt. Svo væri þetta náttúrlegasta umhverfi í heiminum. Það væri gott að gera allan heiminn þannig. Þegar ég verð stór þá ætla ég að reyna þetta.

kv. Þórhildur


Góð frétt fer hringinn

Dofri Hermannsson birti góða frétt á blogginu sínu í gær undir heitinu Líka góðar fréttir. Það eru góðar fréttir víða og sjálfsagt fara að fordæmi Dofra og vekja athygli á þeim, smáum sem stórum. Andarnefjum fjölgar enn á pollinum, ökumenn á Akranesi eru til fyrirmyndar og vel gekk að ganga til góðs á norðanverðum Vestfjörðum. Svo eru líka fréttir sem benda á möguleika til úrbóta í stóra málinu sem allir eru uppteknir af núna. Tökum undir með utanríkisráðherra sem nefnir þrennt til að gera við aðstæður sem þessar: Sýna æðruleysi, vera yfirveguð og bjartsýn. Það er líka mikilvægt, ekki síst vegna þeirra sem líður illa, að láta ekki hrella okkur úr hófi heldur huga að öðrum og vera saman.

kv. kristín


Eftir helgi ...

... koma börnin í skólann, sum eru áhyggjufull út af krepputali undangenginna daga. Pössum upp á þau, verndum þau. Leikskólabörn og yngri börn í grunnskóla eiga ekki að horfa á sjónvarpsfréttir. Eldri börnum segjum við eins og er, við fullorðna fólkið græjum málin. Ræðum málefnalega við unglingana og leggjum áherslu á að það að við erum fjölskylda breytist ekki og við höfum það gaman saman. Í dag er til dæmis upplagt að ganga til góðs. Fátt hefur betri áhrif á sálina en að hjálpa öðrum.

Átakið Göngum til góðs á vegum Rauðakrossins felur í sér að fólk gengur í hús með söfnunarbauka. Söfnunarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu opna klukkan tíu, nema í Ráðhúsinu klukkan tólf. En það er ekki bara gengið í Reykjavík og nágrenni heldur um allt land. Sjá nánar hér

Safnað er fyrir sameiningu fjölskyldna sem sundrast hafa vegna stríðsátaka í Lýðveldinu Kongó og mun söfnunarféð renna óskert til verkefnisins.

Við Þórhildur löbbum í hús í Víkurhverfinu í Grafarvogi. Sjáumst!

Kv. Kristín og Þórhildur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband