Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Einn af mínum uppáhöldum er Zygmunt Bauman, pólskur félagsfræðingur af gyðingaættum, ári eldri en pabbi minn heitinn og næstum jafnsköllóttur og pabbi var.
Bauman kom hingað fyrir nokkrum árum og talaði um lýðræði og hnattvæðingu, hann er einn þeirra sem fékkst (og fæst) við að skilgreina valdið og staðsetja það. Klár og flottur hugsuður en mætti finnst mér alveg gefa mannfræði svolítinn gaum til að missa ekki af ýmsu því sem gerist á akrinum og hefur áhrif til lengri tíma litið ... eða jafnvel á skömmum tíma.
Eins og til að mynda bloggið sem er ekki bara sjálfsdekur heldur líka samfélag með stéttskiptingu og flokkadráttum.
Bauman sá að hið opinbera var að verða hálfgetulaust andspænis peningavaldinu. Hann sagði sem svo: Lýðræði þrífst ekki nema hið opinbera (ecclesia) og hið persónulega (oikos) kallist á í skoðanaskiptum - og vettvangi þeim má líkja við grísku Agoruna, torgið, heimavöll lýðræðis eins og það er þýtt í greinasafninu Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar sem var ritstýrt af Hjálmari Sveinssyni og Irmu Erlingsdóttur.
Lýðræði er þýðingahringur, segir Bauman í greinasafninu, þar sem þýðingu lýkur, þar sleppir lýðræðinu.
Þótt því sé haldið fram að kapítalisminn finni sér alltaf útleið, eins og þá að láta þjálfaða sjimpansa servera kokteilana þegar pöpullinn segir pass er ljóst að einhverjar breytingar eru að verða á samspili public og private, ecclesia og oikos, umfram þær sem Bauman fjallar um. Eru sviðin tvö aftur farin að tala saman? Er þýðingunni langt í frá lokið?
Bretinn Evans-Pritchard taldi að mannfræði ætti að þjóna því hlutverki að þýða á milli menningarsamfélaga. Í póstmódernísku samfélagi þótti þetta fádæma hroki, hvernig er hægt að ætla sér slíkt verk? Það er auðvitað rétt upp að vissu marki en viðleitnin verður alltaf að vera til staðar.
Þýðandinn Gauti Kristmannsson og stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann Einarsson skrifa á ensku í blöð á ensku um íslenska upplifun, á bakvið tjöldin ræða pólitíkusar, bjúrókratar og bankamenn saman þvert á landamæri. Egill - aldrei eftirbátur - ræðir í Kiljunni á frönsku við Philippe Claudel sem samdi Í þokunni. Bókin sú fjallar um hryllilegan glæp og tvo liðhlaupa sem hvor um sig gæti hafa framið glæpinn. Tilviljun að Egill beinir gráum sjónum sínum að þessu viðfangsefni - og hristir rauðan makkann?
Kv. Kristín
Stjórnmál og samfélag | 16.10.2008 | 23:35 (breytt kl. 23:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áhlaup á banka, fjárhagsþrengingar einstaklinga, glataður ævisparnaður. Hremmingar, já. Stríð, nei. Margir hafa gripið til líkingar við stríð og annars líkingamáls sömu ættar en það er reginmunur á því sem við erum að ganga í gegnum og stríði. Í stríði er fólk drepið. Vörum okkur á ýkjustílnum. Hann kemur illa við börn og marga aðra.
Kv. Kristín.
Stjórnmál og samfélag | 13.10.2008 | 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Haustið er uppskafningur
sem heldur að það geti feykt sumrinu um koll
í eitt skipti fyrir öll
-Nú er nóg komið af svo góðu!
segir haustið og byrstir sig
Sumarið lætur sem það heyri ekki
ávítur haustsins
Það kveður bara, góðlátlega,
og birtist á nýjan leik að ári
eins og ekkert hafi í skorist.
Stjórnmál og samfélag | 10.10.2008 | 10:59 (breytt kl. 11:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ef ég væri forseti, forsætisráðherra eða borgarstjóri þá myndi ég breyta öllu umhverfinu. Láta bílvegina fara og í staðinn fyrir bíla myndi ég setja hestvagna. Á öllum bílastæðum myndi ég setja upp girðingar og þar væri hægt að geyma hestana ef maður þyrfti til dæmis að skreppa í búð - þannig að bílastæðin yrðu hestvagnastæði. Ég myndi líka gróðursetja blóm og tré og alls konar plöntur. Svo myndum við rífa öll hús og í staðinn myndum við byggja tréhús. Ef það kæmi stormur eða annað óveður þá myndi ég hafa tréhúsin stálstyrkt. Þá væri umhverfið miljón sinnum betra en núna. Svo myndum við hætta að menga umhverfið og kannski - ef þetta myndi ekki gerast - þá yrði jörðin hugsanlega lífvana eftir fimm hundruð til þúsund ár, ekkert súrefni og bara loftmengun. Þess vegna vil ég endilega láta þetta gerast. Svo myndi ég líka vilja láta búa til sláttuvélar sem myndu ekki slá grasið svona snöggt heldur skilja eitthvað eftir, líflegt, flott og náttúrlegt. Nú ætla ég að segja hvaða tæknihluti við eigum ekki að vera án: Útvarp, tónlistardiskar, IPod, tölvur. En alls ekki sjónvarp. Við þörfnumst ljósa og ljósapera. Ég vil líka láta rífa suma ljósastaura því mér finnst þeir of margir. Stundum hefðum við bara kerti hjá okkur ef það er of dimmt. Svo væri þetta náttúrlegasta umhverfi í heiminum. Það væri gott að gera allan heiminn þannig. Þegar ég verð stór þá ætla ég að reyna þetta.
kv. Þórhildur
Stjórnmál og samfélag | 9.10.2008 | 19:53 (breytt 10.10.2008 kl. 11:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dofri Hermannsson birti góða frétt á blogginu sínu í gær undir heitinu Líka góðar fréttir. Það eru góðar fréttir víða og sjálfsagt fara að fordæmi Dofra og vekja athygli á þeim, smáum sem stórum. Andarnefjum fjölgar enn á pollinum, ökumenn á Akranesi eru til fyrirmyndar og vel gekk að ganga til góðs á norðanverðum Vestfjörðum. Svo eru líka fréttir sem benda á möguleika til úrbóta í stóra málinu sem allir eru uppteknir af núna. Tökum undir með utanríkisráðherra sem nefnir þrennt til að gera við aðstæður sem þessar: Sýna æðruleysi, vera yfirveguð og bjartsýn. Það er líka mikilvægt, ekki síst vegna þeirra sem líður illa, að láta ekki hrella okkur úr hófi heldur huga að öðrum og vera saman.
kv. kristín
Stjórnmál og samfélag | 7.10.2008 | 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
... koma börnin í skólann, sum eru áhyggjufull út af krepputali undangenginna daga. Pössum upp á þau, verndum þau. Leikskólabörn og yngri börn í grunnskóla eiga ekki að horfa á sjónvarpsfréttir. Eldri börnum segjum við eins og er, við fullorðna fólkið græjum málin. Ræðum málefnalega við unglingana og leggjum áherslu á að það að við erum fjölskylda breytist ekki og við höfum það gaman saman. Í dag er til dæmis upplagt að ganga til góðs. Fátt hefur betri áhrif á sálina en að hjálpa öðrum.
Átakið Göngum til góðs á vegum Rauðakrossins felur í sér að fólk gengur í hús með söfnunarbauka. Söfnunarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu opna klukkan tíu, nema í Ráðhúsinu klukkan tólf. En það er ekki bara gengið í Reykjavík og nágrenni heldur um allt land. Sjá nánar hér
Safnað er fyrir sameiningu fjölskyldna sem sundrast hafa vegna stríðsátaka í Lýðveldinu Kongó og mun söfnunarféð renna óskert til verkefnisins.
Við Þórhildur löbbum í hús í Víkurhverfinu í Grafarvogi. Sjáumst!
Kv. Kristín og Þórhildur.
Stjórnmál og samfélag | 4.10.2008 | 07:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allt frá aldamótum hefur Kristín heyrt sögur um skipulagðar sæber árásir eða nethryðjuverk Kínverja á BNA, Tíbet og jafnvel fleiri þjóðir. Hér er sagt frá Trójuhestum og fleira góðgæti sem Kína sendir (að sögn) Tíbeskum NGO's, Falun Gong og Uyghúrum. Það er hægt að berjast á ýmsa vegu.
Stjórnmál og samfélag | 26.3.2008 | 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)