Sjimpansar servera kokteilana

Einn af mínum uppáhöldum er Zygmunt Bauman, pólskur félagsfræðingur af gyðingaættum, ári eldri en pabbi minn heitinn og næstum jafnsköllóttur og pabbi var.

Bauman kom hingað fyrir nokkrum árum og talaði um lýðræði og hnattvæðingu, hann er einn þeirra sem fékkst (og fæst) við að skilgreina valdið og staðsetja það. Klár og flottur hugsuður en mætti finnst mér alveg gefa mannfræði svolítinn gaum til að missa ekki af ýmsu því sem gerist á akrinum og hefur áhrif til lengri tíma litið ... eða jafnvel á skömmum tíma.

Eins og til að mynda bloggið sem er ekki bara sjálfsdekur heldur líka samfélag með stéttskiptingu og flokkadráttum.

Bauman sá að hið opinbera var að verða hálfgetulaust andspænis peningavaldinu. Hann sagði sem svo: Lýðræði þrífst ekki nema hið opinbera (ecclesia) og hið persónulega (oikos) kallist á í skoðanaskiptum - og vettvangi þeim má líkja við grísku Agoruna, torgið, heimavöll lýðræðis eins og það er þýtt í greinasafninu Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar sem var ritstýrt af Hjálmari Sveinssyni og Irmu Erlingsdóttur.

Lýðræði er þýðingahringur, segir Bauman í greinasafninu, þar sem þýðingu lýkur, þar sleppir lýðræðinu.

Þótt því sé haldið fram að kapítalisminn finni sér alltaf útleið, eins og þá að láta þjálfaða sjimpansa servera kokteilana þegar pöpullinn segir pass er ljóst að einhverjar breytingar eru að verða á samspili public og private, ecclesia og oikos, umfram þær sem Bauman fjallar um. Eru sviðin tvö aftur farin að tala saman? Er þýðingunni langt í frá lokið?

Bretinn Evans-Pritchard taldi að mannfræði ætti að þjóna því hlutverki að þýða á milli menningarsamfélaga. Í póstmódernísku samfélagi þótti þetta fádæma hroki, hvernig er hægt að ætla sér slíkt verk? Það er auðvitað rétt upp að vissu marki en viðleitnin verður alltaf að vera til staðar.

Þýðandinn Gauti Kristmannsson og stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann Einarsson skrifa á ensku í blöð á ensku um íslenska upplifun, á bakvið tjöldin ræða pólitíkusar, bjúrókratar og bankamenn saman þvert á landamæri. Egill - aldrei eftirbátur - ræðir í Kiljunni á frönsku við Philippe Claudel sem samdi Í þokunni. Bókin sú fjallar um hryllilegan glæp og tvo liðhlaupa sem hvor um sig gæti hafa framið glæpinn. Tilviljun að Egill beinir gráum sjónum sínum að þessu viðfangsefni - og hristir rauðan makkann?

 Kv. Kristín 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband