Færsluflokkur: Menntun og skóli

Nám í „slotti“

Spyrjandi hringdi í mig í gær til að grennslast fyrir um viðhorf mín sem foreldris til grunnskóla Þórhildar og til skólastefnu í víðara samhengi. Meðal annars var spurt um afstöðu mína til fimm ára bekkjanna svokölluðu. Ég var á móti. Þá var spurt um eitt og annað og svo var vikið aftur að málinu: En ef það yrði nú af þessu hvort vildirðu þá að fimm ára bekkirnir yrðu í leikskólum eða grunnskólum? Ég vildi hvorugt. Mér finnst útbreiðsla skólalíkansins gamla sem við þekkjum öll af eigin raun vera nú þegar orðin of mikil og margir kennarar upplifa sig í þeirri stöðu að gera eins gott úr hlutunum og hægt er miðað við aðstæður.

Nám hvorki bíður eftir né biður um að vera fært til bókar. Því er illa við að búið sé til fyrir það fjörutíu mínútna „slott“ og því gert að fara þar fram undir tilteknu nafni. En svona er kerfið sem við búum við og höfum búið til og það tekur langan tíma að breyta því. Í millitíðinni gerum við okkar besta og reynum að tengja lífið og daginn í eina heild með samvinnu nemenda, kennara og foreldra.

Franska, kubbaleikur, stærðfræði, lífsleikni, boltafærni og tölvulæsi er nokkuð sem á heima í glósubókum, blackberrýum, notebookum og outlookum kennara en síður í "slottum" á námsdegi nemandans. Það á ekki að setja þessa hluti fram sem hindrunarhlaup eða aðskilin eyríki.

Ung manneskja er með samtengda vitsmuni, sál og líkama, sköpunarneista, félagsþörf, skapgerð og tilfinningar. Hún þarf að æfa sig í alls konar skemmtilegum, krefjandi og innihaldsríkum hlutum í samveru með öðrum. Með því að búta sífellt meira sundur námið álít ég að við takmörkum möguleika okkar sjálfra og annarra á að læra og verða það sem höfum burði til að verða.

Með heildstæðu námi er eitt vandamál leyst sem margir kennarar kvarta undan, að í sífellu sé herjað á þá um að bæta þessu og hina inn á stundatöfluna (sem nú þegar flæðir yfir barma sína). Treystum nemendum og kennurum til að finna út úr því hvað er best að gera þennan eða hinn daginn og slökum á eftirliti og námsmati. Þá fyrst fer að verða virkilega gaman í skólanum fyrir báða aðila. Og afskaplega lítið nám fer fram ef það er ekki gaman.

kv. kristín


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband